Bandaríska alríkislögreglan FBI varar ferðamenn við að nota ókeypis WiFi tengingar á ferðalögum

Bandaríska alríkislögreglan FBI varar ferðamenn við að nota ókeypis WiFi tengingar á ferðalögum

19.12.2019

Bandaríska alríkislögreglan FBI birti nýlega pistil þar sem ferðamenn eru varaðir við að nota ókeypis WiFi tengingar á ferðalögum, s.s á hótelum, veitingastöðum og flugvöllum. FBI bendir á að með því að leyfa tækjum eins og snjallsímum, smátölvum og fartölvum að tengjast sjálfkrafa slíkum netum sé verið að gera óprúttnum aðilum auðveldara fyrir að koma fyrir óværu á tækjunum, stela lykilorðum og PIN númerum eða jafnvel yfirtaka stjórn á tengiliðaupplýsingunum þínum og myndavél tækisins.

Það er samt ekki þannig að blátt bann sé lagt við því að tengjast þráðlausu neti, heldur er fólk hvatt til að nota ekki opin óörugg net til að fara t.d. í heimabanka. 
Tölvuþrjótar geta tekið yfir stjórn á óöruggum þráðlausum netum og þannig komist yfir viðkvæmar upplýsingar á snjalltækjum og fartölvum. Þá eru jafnvel HTTPS slóðir í hættu.

FBI ráðleggur fólki á ferðinni að nota frekar farsímanetin 3G eða 4G. þannig er einnig hægt að nota símann sem WiFi tengingu fyrir fartölvur. 

Hollráð fyrir fyrirtæki er svo að hafa sérstakt gestanet fyrir utanaðkomandi sem þurfa að tengjast netinu, þ.e. ekki láta ókunnug tæki tengjast innra neti fyrirtækisins.

Sjá pistilinn í heild á vef FBI

 

Til baka