Nokkur góð ráð

Afritaðu öryggisins vegna

Taktu reglulega öryggisafrit af einkagögnum, svo sem fjölskyldumyndum, og geymdu á öruggum stað hvort sem er á utanáliggjandi hörðum disk, minnislykli eða skýjaþjónustu.

Ekki leyfa „macros“ nema að vel athuguðu máli

Ekki er mælt með að leyfa smáforrit - "macros" - sem eru m.a. algeng í Word eða Excel skjölum sem þú tekur á móti nema að vel athuguðu máli. Þetta á sérstaklega við ef um er að ræða óumbeðin viðhengi í tölvupósti. Þessi smáforrit eru í dag ein algengasta dreifileið óværu. Oft er ónauðsynlegt að leyfa "macros" jafnvel þó þú kjósir að opna aðsent skjal.

Gagnalekar

Gagnalekar frá ýmsum netþjónustum eru því miður tíðir viðburðir í dag. Algengt er að notendanöfnum og jafnvel lykilorðum notenda sé lekið og eru slíkar upplýsingar meðal annars nýttar af tölvuþrjótum. Þitt lykilorð gæti hafa verið opinberað án þinnar vitneskju. Hægt er að kanna hvort þitt lykilorð sé að finna í nokkrum af stærri gagnalekunum með að nýta sér þjónustuna haveibeenpwned? Hægt er að minnka áhættuna af gagnalekum með að temja sér ákveðnar varúðarráðstafanir svo sem að nota sterk og einstök lykilorðtvíþætta auðkenningu og lykilorðabanka.

Gefðu þér ekki of rúm réttindi

Algengt er að notendur gefi sér of rúm réttindi á tölvuna. Rétt er að varast að hafa meiri réttindi en nauðsynleg eru þá stundina og getur það hjálpað til að lágmarka skaða af tölvuárás eða jafnvel óhappi. Í daglegri vinnu er best að notfæra sér ekki notendareikning með stjórnaðgangi (administrator eða root), en sá aðgangur er almennt aðeins nauðsynlegur til að sinna kerfisstjórnun eða setja upp ný forrit. Því er betra að nota takmörkuð réttindi í daglegri vinnu en hækka frekar réttindi sín þegar á þarf að halda.

Góðar venjur við meðhöndlun aðgangsupplýsinga

Gagnalekar eru því miður tíðir atburðir þar sem notendanöfn og jafnvel lykilorð grunlausra notenda er lekið á netið. Þetta þýðir að lykilorðið þitt gæti verið opinberað án þinnar vitneskju. Þó svo að það sé lítið við þessu að gera að þá er samt hægt að minnka eiginn áhættu með því að temja sér ákveðnar varúðarráðstafanir s.s. að nýta tvíþætta auðkenningu, sterk og einstök lykilorð og lykilorðabanka. Meðal annars er hægt að nýta sér leiðbeiningar Google um smíði lykilorða.

Notaðu endabúnaðsvarnir

Góðar endabúnaðsvarnir s.s. eldveggir og vírusvarnir eru mikilvægar öryggisráðstafanir. Flest stýrikerfi eru með innbyggða eldveggi sem geta komið í veg fyrir flestar óumbeðnar tengingar inn á tölvuna þína. Mikilvægt er að virkja eldvegginn. Hægt er að fá talsvert úrval ókeypis vírusvarna, auk þess sem slíkt er innbyggt í sum stýrikerfi. Mælt er með að velja vandlega góða endabúnaðsvörn og halda henni uppfærðri. Með því má koma í veg fyrir margar tegundir tölvuárása.

Passaðu upp á persónuupplýsingarnar

Það getur verið varhugavert að gefa upp viðkvæmar eða persónulegar upplýsingar um þig á netinu. Þetta á sérstaklega við ef þú þekkir ekki aðilan eða fyrirtækið sem óskar eftir þínum upplýsingum. Upplýsingar eins og kennitala, heimilisfang, símanúmer og kreditkortanúmer geta verið gullnáma í höndum rangra aðila. Vefveiðar af ýmsu tagi eru ein algengasta tegund netglæpa um þessar mundir. Því er mikilvægt að staldra við og skoða vel hver óskar eftir þínum upplýsingum og hvers vegna. Mundu að gefa aldrei upp persónulegar upplýsingar af nokkru tagi á vefsíðum sem nota ekki dulkóðuð samskipti (https), jafnvel þó um sé að ræða fyrirtæki sem þú treystir. Tölvupóstur er líka í eðli sínu óöruggur miðill og ætti aldrei að nota til að deila viðkvæmum upplýsingum. 

Uppfærðu búnað reglulega

Öryggi tölva og hugbúnaðar tekur sífelldum breytingum með uppgötvun nýrra veikleika og öryggisbresta. Þar af leiðandi getur öruggi hugbúnaður dagsins í dag gert notendur berskjalda fyrir tölvuárásum á morgunn með slíkum uppgötvunum. Þess vegna er afar mikilvægt að uppfæra tölvur og hugbúnað reglulega. Sérstaklega er mikilvægt að halda stýrikerfi og vörnum, s.s. vírusvörnum, uppfærðum. Almennt er öruggast að nota nýjustu útgáfur stýrikerfa og varast sérstaklega eldri kerfi sem eru óstudd af framleiðanda.

Varaðu þig á viðhengjum og hlekkjum

Viðhengi í skilaboðum á samfélagsmiðlum eða tölvupósti frá meinfýsnum aðilum geta innihaldið spilliforrit sem geta haft slæm áhrif á tölvuna þína. Það sama á við um að smella á hlekki frá slíkum aðila, hvort sem er á samfélagsmiðlum, vefsíðum eða í tölvupósti. Ekki opna viðhengi eða smella á hlekki nema að vel athugðu máli. Gott ráð er að setja músarbendilinn yfir hlekki í tölvupósti án þess að smella en þá má lesa hver vefslóðin er. Ef slóðin virðist vera óskyld efni tölvupóstsins er öruggast að láta vera að smella. Vertu líka á varðbergi ef einhver sem þú treystir sendir óvenjulegt viðhengi sem þú átt ekki von á.