Beint á efni síðunnar

Vernd gegn blekkingum

Glæpamenn á Netinu stunda ákaft iðju sína. Þeir reyna að blekkja fólk til að komast yfir upplýsingar og fjármuni (Social Engineering).

Vefveiðar (Phishing)

Ein leið þrjóta er að fiska upp úr netverjum viðkvæmar upplýsingar. T.d. færðu tölvupóst eða sprettigluggi skýst upp, þar sem líkt er eftir tilkynningu frá fyrirtæki. Þar er tilgreint „vandamál“ sem þarf að leysa. Þú ert beðinn um að fylgja slóð að heimasíðu sem er í raun fölsuð eftirlíking. Ef þú fylgir fyrirmælum gefur þú óvart upp viðkvæmar upplýsingar svo sem aðgangs- og lykilorð, eða kreditkortanúmer. 

Smelltu hér til að fá upplýsingar og leiðbeininga um vefveiðar


 „Maður í miðju“ og „maður í vafra“ ("Man-in-the-middle/browser")

„Maður í miðju“ táknar að tölvuþrjótur hefur náð að blekkja tvær tölvur sem hafa samskipti sín á milli, til að senda alla umferð til sín óséð. Á þennan hátt getur hann hlerað samskipti milli tölvanna og breytt innihaldi samskiptanna.

„Maður í vafra“ táknar að tölvuþrjótur nær að hlera lotur vafra án vitundar notandans. Á þennan hátt getur hann látið senda sér allt um samskipti vafrans við vefþjón, þ.m.t. netbanka. Það sem er enn hættulegra er að hann getur tekið lotuna yfir og millifært í netbanka, eða keypt hluti á Netinu, án nokkurra ummerkja á tölvuskjánum.


„Greitt fyrirfram“ (Advanced-fee-fraud)

Gylliboð tíðkast á Netinu til að hafa fé af fólki, svo sem þegar þú af margs konar ástæðu færð beiðni um fyrirframgreiðslu. Glæpamennirnir hirða hana, efna ekkert og upphæðin er töpuð. Oft er látið líta út sem þú hafir unnið í happdrætti og ert beðinn um upplýsingar um bankareikninginn þinn sem þrjótarnir tæma. Líka er algengt að “spennandi” einstaklingur af hinu kyninu óskar eftir „smá aðstoð“ við fjárhaginn. Allmörg gylliboð berast frá Afríku.

Góð ráð
 • Ef tilboð á Netinu hljómar of vel til að vera satt, þá er það líklega ekki satt
 • Slæmar ritvillur eru oft einkenni blekkinga á Netinu.
 • Aldrei borga neitt fyrirfram sem þú ert ekki öruggur um
 • Passaðu vel upp á bankaupplýsingarnar þínar
 • Notaðu einhvers konar síu til að forðast ruslpóst
 • Hunsaðu allan tölvupóst þar sem þú ert ekki nafngreindur beint, heldur hefst t.d. með "Dear customer".
 • Forðastu að smella á vefföng sem þér berast í tölvupósti, þau geta verið fölsuð. Oft eru slík vefföng frekar löng og innihalda mörg % merki, sem ætlað er að villa um fyrir fólki.
 • Notaðu "phishing" varnir í vafranum
 • Forsenda þess að gefa upp banka- og einkaupplýsingar á vefsíðum er að samskiptin séu dulkóðuð.
 • Skoðaðu vandlega reikninga fyrir kreditkortið þitt
 • Ef þú lendir í klóm slíkra manna, hikaðu ekki að leita til lögreglunnar
Leita