Beint á efni síðunnar

Eldveggur (Firewall)

Eldveggur veitir vörn gegn utanaðkomandi netumferð frá Netinu en hleypir umferðinni frá þér óhindrað í gegn. Tölvan þín virðist "ósýnileg" á Netinu þeim sem leita uppi tölvur til að brjótast inn í. Hann kemur því í veg fyrir mörg innbrotin og skemmdir á tölvugögnum. Hann getur líka varist svokölluðum netormum (Network Worms). Stundum uppgötvast glufur í vörnum eldveggja sem netormar sleppa í gegnum, eða innbrotsþjófar nýta sér. Af þessum ástæðum ber því alltaf að setja inn nýjar stigbætur frá framleiðanda um leið og þær eru í boði. Ennfremur er mikilvægt að vita að eldveggir greina ekki óværur spilliforrita í gögnum sem þér berast, eða sem þú sækir. Það sem meira er, ef þær ná bólfestu í tölvu þinni tekst þeim stundum að aftengja eldvegginn eða hleypa utanaðkomandi umferð tölvuþrjótanna inn. Þess vegna eru veiru- og njósnavarnir jafnframt tölvunni lífsnauðsynlegar og reglulegar stigbætur þeirra.


Eldveggir geta verið tvenns konar

  • Eldveggur í tölvu (Personal Firewall) - Hugbúnaður sem settur er upp á hverri tölvu og ver hana eingöngu
  • Eldveggur í netbeini (Router Firewall) - Netbeinirinn hefur líka það hlutverk að vernda staðarnetið þitt gegn utanaðkomandi.

Við mælum eindregið með notendur kanni hjá þjónustuaðila sínum hvort eldveggur í netbeini sé ekki virkur og vandlega stilltur, eins og honum ber að afhenda hann skv.3. lið í 22. gr. í reglum Póst- og fjarskiptastofnunar. - Hið sama gildir um góðar öryggisráðstafanir í þráðlausum aðgangs punkti netbeinisins.


Góð ráð

  • Æskilegt er að nota hvort tveggja eldvegg í tölvu og í netbeini. Því víðþættari öryggisráðstafanir þeim mun betra.
  • Stofnaðu alla notendur á tölvunni sem venjulega notendur, ekki sem stjórnendur. Þeir hafa takmörkuð réttindi og geta hvorki breytt stillingum eldveggjar né gert hann óvirkan og öryggi tölvunnar eykst. Eingöngu stjórnandi (Administrator) tölvunnar á að hafa umsjón með eldvegg.
  • Ekki opna glufur fyrir utanaðkomandi netumferð gegnum eldvegg nema sérstakt tilvik krefjist þess. Mundu að loka aftur sem fyrst ef þú ert að prófa slíkt vegna einhverra tæknivandamála
  • Stigbættu eldvegginn reglulega með nýjustu viðbótum og helst sjálfvirkt (Automatic Update)
  • Notaðu aðrar varnir í tölvu samhliða eldvegg, s.s. gegn spilliforritum
  • Snúðu þér til lögreglunnar ef þú telur að brotist hafi verið inn í tölvuna þína

 

Leita