Vefveiðar

vefveidarVefveiðar

Vefveiðar (e. Phishing) er ein af þeim ógnum sem beinast gegn netnotendum í dag og full ástæða til að vera alltaf á varðbergi.

Vefveiðar hefjast oftast með tölvupósti sem virðist koma frá þekktu fyrirtæki. Stundum er pósturinn sjálfur agnið og ætlast til að notandinn sendi viðkvæmar upplýsingar til baka. Oft er hann þó aðeins fyrsta skrefið og algengt að í póstinum sé hlekkur eða hnappur sem leiðir notandann áfram á falska vefsíðu þar sem reynt er að blekkja notandann til að slá inn persónuupplýsingar s.s. notendanafn, lykilorð eða greiðslukortaupplýsingar. 

Vefveiðapóstar eru oft illþekkjanlegir sem slíkir og falskar vefsíður eru einnig oft á tíðum vel gerðar og nánast eins og raunverulegar skráningarsíður fyrirtækjanna sen notuð eru sem agn.

 

Góð ráð við að verjast vefveiðum

Hafið varann á...

Verið mjög tortryggin á tölvupóst sem ykkur berst, sérstaklega frá ókunnum aðilum. Varist gylliboð en takið hótanir ekki of hátíðlega. Góð leið er að hringja í þann sem tölvupóstur virðist vera frá og staðfesta áður en þið sendið viðkvæmar upplýsingar sem geta valdið skaða í röngum höndum.

Hugsið áður en þið smellið

Hlekkir í vefveiðapóstum vísa oft á slóðir sem er ólíklegt að tilheyri því fyrirtæki sem pósturinn á að koma frá. Hægt er að skoða slóðina áður en þið smellið með að setja músina yfir hlekkinn eða takkann. Ef slóðin er mjög löng eða lén lítur ekki út fyrir að tilheyra sendanda er best að sleppa því að smella.