Tengd tæki

Tengd_taeki Á heimilum og vinnustöðum í dag eru sífellt fleiri nettengd tæki. Þar má nefna mismunandi gerðir af tölvum, svo sem borð- og fartölvur, síma, spjald- og  leikjatölvur, ásamt beinum (e. routers) til að tengja tölvurnar við internetið. Þar að auki eru líka ýmiskonar snjalltæki tengd við netið, svo sem sjónvörp, netflakkarar og vefmyndavélar. Þessi tæki eru í raun litlar tölvur sem þarf að passa upp á að séu varðar og uppfærðar, rétt eins og á við um annan búnað.

Tengdu tækin geta gert daglegt líf okkar auðveldara en þau skapa líka hættu. Vegna smæðar sinnar og sérhæfingar er oft erfitt að uppfæra þessi tæki og fá þau sjaldan sjálfvirkar uppfærslur. Að auki hefur verið áberandi að framleiðendur hafi ekki hugað að öryggi eða leiðbeint notendum nægilega vel og er sem dæmi of oft notuð sjálfgefin lykilorð sem gerir að verkum að auðvelt er fyrir óprúttna aðila að ná stjórn á þessum tækjum. Sjálfgefin eða auðágiskanleg lykilorð gera það að verkum að auðvelt er að taka yfir tæki sem aðgengileg eru frá hinu almenna interneti. Tölvuþrjótar beita sjálfvirkum aðferðum við að leita uppi slík tæki og ná stjórn á þeim.

Óprúttinn aðili sem nær stjórn á þínum snjalltækjum getur misnotað þau með ýmsum hætti. Hægt er að nýta tækin til að afla upplýsinga um þig og þína s.s. að horfa á beinar útsendingar úr öryggismyndavélum þínum eða ná úr þeim upplýsingum sem geta verið viðkvæmar. Einnig hefur verið áberandi að óprúttnir aðilar hafi safnað sjálfvirkt snjalltækjum sem eru veik fyrir í s.k. botnet sem notuð eru í ýmsum tilgangi, þar á meðal að gera nokkrar stærstu álagsárásir sem sést hafa í heiminum. 
  

Góð ráð til að verja tengd tæki

Ekki nota sjálfgefið lykilorð

Mikilvægt er að breyta sjálfgefnum lykilorðum allra tengdra tækja strax og þau eru sett upp. Þar að auki er nauðsynlegt að nota sterk lykilorð á þessi tæki, rétt eins og annan tölvubúnað. Best er að leita leiðbeininga um breytingar á lykilorðum hjá framleiðanda.

Takmarkaðu aðgang að snjalltækjum frá netinnu

Best er að takmarka sem mest aðgang utanaðkomandi að þínum tækjum gegnum netið. Það er meðal annars hægt að gera með að nýta reglur í eldvegg, en slíkur búnaður er oft byggður inn í beini (e. router) heimilisins. Universal Plug and Play (UPnP) á beininum getur verið varasamt þar sem sá möguleiki getur veitt óprúttnum aðilum aðgang að þínum snjalltækjum sem annars væru varin af eldvegg. Því er rétt að slökkva á UPnP nema sé bráðnauðsynlegt að opna á þá þjónustu.

Uppfærðu tækin þín reglulega

Nettengd tæki eru í raun litlar tölvur og því mikilvægt að uppfæra þau reglulega, rétt eins og hefðbundnari tölvubúnað. Sérstaklega er mikilvægt að passa upp á öryggisuppfærslur. Sum tæki er hægt að stilla þannig að uppfærslur komi inn sjálfkrafa, en fyrir önnur tæki þarf að setja þær inn handvirkt. Gott er að skoða reglulega síður framleiðanda til að kanna hvort nýjar uppfærslur séu komnar eða skrá sig á póstlista til að fylgjast með slíku.