Símasvik

simasvikSímasvik af ýmsu tagi hafa verið algeng að undanförnu. Þar á meðal eru símtöl frá aðilum sem þykjast vera starfsmenn Microsoft og bjóðast til að laga vandamál í tölvunni þinni. Markmið þeirra er oftast að ná aðgangi yfir tölvunni þinni til að misnota hana en einnig að komast yfir kreditkortanúmer og aðrar persónuupplýsingar. Beitt er sálfræðilegum aðferðum, á ensku oft kallað "social engineering" til að blekkja fórnarlömbin til að gefa upp sínar upplýsingar.

Komist svikahrappar yfir kreditkorta eða bankaupplýsingar eru þær ýmist nýttar strax til að komast yfir fjármuni eða seldar. Á netinu skjóta reglulega upp kollinum síður sem selja slíkar upplýsingar. Aðgangsupplýsingar - notendanafn og lykilorð - er gulls ígildi en með þeim má ná stjórn á tölvu notandans til að misnota með ýmsum hætti. Einnig er veruleg hætta á að aðgangsupplýsingar séu notaðar til að ná stjórn á aðgangi notandans að hinum ýmsu þjónustum sem við notum í daglegu lífi, svo sem tengingum við vinnustað, tölvupóst eða samfélagsmiðla. Oft óska hinir hjálplegu tæknimenn eftir að fórnarlambið setji upp fjarstýrihugbúnað sem gerir kleyft að ná fullri stjórn á tölvunni og öllum gögnum sem á henni eru.


 

Góð ráð við að verjast símasvikum

Forðist að gefa upp bankaupplýsingar

Forðist að gefa upp bankaupplýsingar í síma, þ.m.t. kreditkortanúmer, nema að vel athuguðu máli. Aldrei ætti að gefa upp slíkar upplýsingar í símtali við aðila sem þið vitið ekki full deili á.

Forðist að setja upp hugbúnað sem ókunnir aðilar biðja um

Oft er markmið þeirra sem hringja að fá notandann til að setja upp fjarstýribúnað s.s. TeamViewer og í framhaldinu ná stjórn á tölvunni. Ekki er ráðlegt að fylgja slíkum leiðbeiningum. Hafið frekar samband við ykkar þjónustuaðila hérlendis eða einhvern annan sem þið treystið til að vinna í ykkar tölvu.

Hafið varann á...

Ef einhver hringir í þig og býðst til að gera við tölvuna þína er líklegt að eitthvað hangi á spýtunni. Líklegt er að viðkomandi sé að reyna að komast yfir þínar persónuupplýsingar, s.s. notendanafn og lykilorð eða kreditkortanúmer. Einnig er líklegt að viðkomandi sé að reyna að komast yfir aðgang að tölvunni þinni til að misnota hana.